Eggert á langa sögu sem knattspyrnuþjálfari en hann hóf knattspyrnuferil sinn hja uppeldisfélagi sínu Vikingi. Hjá Víkingi starfaði hann í mörg ár og átti farsælan feril þar. Eftir það kom hann víða við fór meðal annars til Færeyja og þjálfaði B-36 og var þar í nokkurn tíma. Er heim kom gerðist hann þjálfari hjá Víði Garði og fleiri félögum. Ég kynntist Eggerti náið eftir að stofnfundur knattspyrnuþjáfarafélags Ísland (KÞÍ) var haldinn í hátíðasal Austurbæjarskóla fyrir réttum 50 árum síðan en á þeim fundi sátum við Eggert ásamt nokkrum áhugasömum knattspyrnuþjálfurum. Aðalhvatamaður að þessum stofnfundi var Albert Guðmundsson sem þá var formaður KSÍ. Eggert tók við formennsku félagsins af fyrrum formönnum KÞÍ, þeim Sölva Óskarssyni sem var fyrsti formaður félagsins og Þóhalli Stígssyni. Eggert fékk undirritaðan til að vera með sér í stjórn sem varði í ein tíu ár. Hann var mjög áhugasamur um hag knattspyrnuþjalfarafélagsins og í hans formannstíð varð KÞÍ aðili að stofnun knattspyrnuþjálfarafélags Evrópu sem var mikið framfaraspor fyrir knattspyrnuþjálfara í Evropu ekki síst hér á landi en við það opnuðust ýmsar leiðir á námskeið og ráðstefnur í mörgum löndum.
Samskipti okkar Eggerts hafa alltaf verið mikil og náin í gegnum tíðina eða allt til þess tíma að hann veiktist af þessum sjúkdómi sem felldi hann að lokum. Ég náði að heimsækja Eggert rétt fyrir andlát hans og var mikið af honum dregið en hann hafði þó þrek til að teikna upp nokkrar æfingar fyrir okkur sem sýndi hvar hugur hans lá. Ég vil að lokum þakka Eggerti fyrir samveruna og vináttuna á okkar langa knattspyrnuþjalfaraferli um leið og ég flyt kveðju frá stjórn knattspyrnuþjálfarafélagi Íslands með þökk fyrir hans mikla starf í þágu félagsins. Ég votta fjölskyldu Eggerts mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Lárus Loftsson