Lög félagsins

Lög Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands

1. grein.

Um félagið

Félagið heitir Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands, KÞÍ.

2. grein.

Félagið er félag knattspyrnuþjálfara á Íslandi með eigin fjárhag og lög. Starfsár KÞÍ er almanaksárið.

3. grein.
Markmið og tilgangur

Markmið og tilgangur félagsins skulu vera:

  • Að sameina knattspyrnuþjálfara í eitt félag.
  • Að vinna að hagsmunamálum knattspyrnuþjálfara í hvívetna.
  • Að stuðla að jafnrétti meðal þjálfara.  
  • Að auka áhuga á knattspyrnuþjálfun.
  • Að stuðla að því að allir þeir sem starfa við knattspyrnuþjálfun, hafi hlotið undirstöðumenntun í knattspyrnuþjálfun.
  • Að auka menntun þeirra, er starfa að tilsögn og þjálfun í knattspyrnu.
  • Að kappkosta að eiga sem best samstarf við KSÍ og alla þá sem vinna að eflingu og útbreiðslu knattspyrnunnar.
  • Að koma á og viðhalda samskiptum við knattspyrnuþjálfarafélög erlendis.
  • Vera virkur málsvari knattspyrnuþjálfara.

4. grein.

Markmiðum sínum skal félagið m.a. ná með því að:

  • Halda skrá yfir alla félagsmenn og innheimta árgjald.
  • Veita félagsmönnum aðstoð og ráðgjöf í hagsmunamálum.
  • Halda fræðslufundi og ráðstefnur um knattspyrnuþjálfun.
  • Leggja áherslu á að ná til allra knattspyrnuþjálfara óháð kyni, búsetu, þjóðerni og vettvangi þjálfunar.   
  • Gera kröfur um lágmarksmenntun fyrir aðild að félaginu.

5. grein.

Félagsaðild

Innganga í félagið skal öllum heimil sem starfa við eða hafa starfað við knattspyrnuþjálfun. Félagar verða fullgildir meðlimir þegar þeir hafa greitt árgjald til félagsins. Félagsmenn þurfa að hafa lokið fyrsta þjálfarastigi KSÍ fyrir knattspyrnuþjálfara, eða sambærilegri menntun.

6. grein.

Árgjald

Árgjöld félagsmanna skulu ákveðin á aðalfundi hverju sinni. Aðeins félagsmenn hafa atkvæðisrétt á aðalfundi. Stjórnarmenn og varamenn á hverjum tíma eru undanþegnir greiðslu árgjalds en teljast fullgildir félagsmenn. Hið sama gildir um framkvæmdastjóra sé hann starfandi og félagsmaður. Heiðursfélagar KÞÍ eru undanþegnir greiðslu árgjalds og teljast fullgildir félagar í KÞÍ.

7. grein.

Stjórn félagsins

Stjórn félagsins skipa fimm menn, formaður og fjórir stjórnarmenn. Í varastjórn skal kjósa tvo menn. Formaður skal kosinn sérstakri kosningu til tveggja ára í senn, sbr. 10. grein. Leitast skal eftir því að tryggja sem jöfnust kynjahlutföll meðal stjórnarmanna. Stjórnarmenn skipta þannig með sér verkum: varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Aðra stjórnarmenn skal einnig kjósa til tveggja ára og skal ár hvert kjósa tvo þeirra. Varamenn skulu kosnir til eins árs. Sé þess kostur skal leitast við að hafa einn stjórnarmann eða varamann í stjórn af landsbyggðinni.

Ef stjórnarmaður forfallast á fundi skal boða varamann í hans stað. Fyrst skal kalla inn þann varamann sem lengur hefur setið í varastjórn. Forföll skal tilkynna formanni með eins góðum fyrirvara og unnt er. Formaður skal boða varamann á stjórnarfund.   

Allar tilnefningar til stjórnarkjörs KÞÍ þurfa að hafa borist stjórn KÞÍ á netfangið kthi@kthi.is síðasta lagi tveimur vikum fyrir aðalfund félagsins.

Stjórn KÞÍ fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Stjórn skal annast að skipulag og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórn tekur meiri háttar ákvarðanir sem ekki eru stefnumarkandi, sbr. 2. mgr. 9. gr. Stjórn er heimilt að ráða framkvæmdastjóra til starfa sem annast daglegan rekstur og fer eftir stefnu og fyrirmælum stjórnar. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða meiri háttar.

Stjórn félagsins skal á hverjum tíma leitast við að upplýsa félagsmenn sína um helstu hagsmunamál sem stjórn vinnur að. Í því skyni skal stjórn halda úti upplýsingamiðlun. 

8. grein.

Stjórnarfundir

Stjórnarfundi boðar formaður, þegar hann eða meirihluti stjórnar telur nauðsynlegt. Stjórn er ákvörðunarbær þegar meiri hluti stjórnarmanna sækir fund. Leitast skal eftir því að allir stjórnarmenn hafi tök á því að fjalla um mál ef um meiri háttar ákvörðun er að ræða. Ákvarðanir stjórnar öðlast gildi með einföldum meirihluta. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns úrslitum.

9. grein.

Aðalfundur

Aðalfund félagsins skal halda árlega á tímabilinu 15. febrúar til 30. apríl. Boða skal aðalfund með tveggja vikna fyrirvara í fjölmiðlum og/eða á samfélagsmiðlum. Reikningsár KÞÍ er starfsárið. Rétt til setu á aðalfundi, auk félagsmanna, eiga stjórn KSÍ, framkvæmdastjóri KSÍ og fræðslustjóri KSÍ eða annar starfsmaður sem sinnir fræðslumálum hjá KSÍ. Hafa þessir aðilar málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðarétt.

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum KÞÍ og veitir stjórn umboð til þess að stýra málefnum félagsins í samræmi við 7. gr. Allar stefnumarkandi ákvarðanir félagsins skulu teknar af aðalfundi. Séu málefni borin undir aðalfund skal einfaldur meiri hluti fundar ráða með þeim undantekningum sem mælt er fyrir í 11. gr. Aðalfundur er ákvörðunarbær hafi verið boðað til hans í samræmi við 1. mgr.   

10. grein.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  • Fundarsetning.
  • Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  • Skýrsla stjórnar.
  • Reikningar félagsins.
  • Lagabreytingar.
  • Kosning formanns, stjórnarmanna og varamanna, skv. ákvæðum 7. greinar.
  • Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
  • Ákvörðun um árgjald, skv. 6. grein.
  • Önnur mál.
  • Fundi slitið.

11. grein.

Lagabreytingar o.fl.

a) Breytingar á lögum þessum má aðeins gera á aðalfundi og þurfa 3/4 fundarmanna að greiða þeim atkvæði. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn félagsins skriflega 7 dögum fyrir aðalfund.

b) Tillaga um að leggja KÞÍ niður hlýtur ekki endanlega afgreiðslu fyrr en á framhaldsaðalfundi og þurfa ¾ hlutar fundarmanna að greiða tillögunni atkvæði.

c) Framhaldsaðalfundur skal vera boðaður með einnar viku fyrirvara í fjölmiðlum og/eða á samfélagsmiðlum.

d) Verði félagið lagt niður afhendast gögn og sjóður þess Knattspyrnusambandi Íslands.

12. grein.
Gildistaka

Lög þessi öðlast þegar gildi.