Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands var stofnað þann 13. nóvember árið 1970. Það var Albert Guðmundsson, þáverandi formaður Knattspyrnusambands Íslands, sem var helsti hvatamaðurinn að stofnun þess og hefur hann stundum verið nefndur faðir félagsins. Albert vildi sameina íslenska knattspyrnuþjálfara í eitt félag, auka samstöðu þeirra og menntun til að gera þá færari um að ná valdi og fullum skilningi á hinum hröðu breytingum í framkvæmd knattspyrnuleiksins.

Stofnfundurinn fór fram í Austurbæjarskóla í Reykjavík og sóttu hann 21 þjálfari auk fimm fulltrúa KSÍ. Á þessum fyrsta fundi voru bráðabirgðalög félagsins samþykkt og markmiðum félagsins lýst. Markmið félagsins skyldu einkum vera að auka áhuga á knattspyrnuþjálfun og að ýta undir að allir þjálfarar hefðu undirstöðumenntun í þjálfun. Af þeim verkefnum sem fundarmenn töldu að ættu að vera í forgrunni í starfi félagsins eru mörg enn í dag undirstaða þess sem félagið stendur fyrir. Þar má einkum nefna fræðslu- og kynningarfundi með þjálfurum og samstarf við KSÍ um þau mál er að þjálfun lúta.
Fyrsta stjórn Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands var kjörin á stofnfundinum og var skipuð þeim Sölva Óskarssyni, Reyni G. Karlssyni, Erni Steinsen, Lárusi Loftssyni og Ríkharði Jónssyni. Kraftur var í félaginu til að byrja með og var félagið kynnt með ýmsum hætti, m.a. í fjölmiðlum og með bréfaskrifum til knattspyrnufélaganna. Fræðslufundir voru haldnir og fréttablað gefið út svo eitthvað sé nefnt. Knattspyrnuþjálfarafélagið var strax í upphafi í töluverðu samstarfi við tækninefnd KSÍ, sem sá um fræðslumál Knattspyrnusambandsins á þeim tíma, enda uppfræðsla knattspyrnuþjálfara eitt af stóru verkefnum beggja aðila. Samstarfið leiddi m.a. til umbóta á þjálfaranámskeiðum sambandsins. Í tengslum við þessar umbætur náðist gott samband við þjálfarafélög í nágrannalöndunum og í kjölfarið var unnið í því að fá erlenda þjálfara til að kenna á námskeiðum hér á landi.
Á öðru starfsári félagsins hélt Allan Wade, frá enska knattspyrnusambandinu, námskeið sem KÞÍ og KSÍ stóðu að í sameiningu og síðan þá hafa fjölmargir erlendir þjálfarar verið fengnir til landsins. Íslenskir þjálfarar hafa einnig árum saman viðað að sér þekkingu með því að heimsækja þjálfara og félög í öðrum löndum enda meðvitaðir um að leikurinn þróast hratt og nauðsynlegt er, sér í lagi fyrir fámenna þjóð, að fylgjast með straumum og stefnum hverju sinni. Í nóvember árið 1970 kom Albert Guðmundsson því til að leiðar að enska knattspyrnusambandið hélt sérstakt námskeið fyrir íslenska knattspyrnuþjálfara. Námskeiðið var haldið í Crystal Palace-íþróttamiðstöðinni í London og sóttu það 14 íslenskir þjálfarar. Í 10 ára afmælisriti KÞÍ segir Ágúst Ágústsson um námskeiðið; „Ekki er nokkur vafi á því að námskeið þetta virkaði á íslensku þjálfarana sem vítamínsprauta.”
Knattspyrnuþjálfarafélagið hefur frá upphafi áttað sig á mikilvægi samstarfs við aðrar þjóðir. Félagið var eitt átta stofnfélaga Evrópska knattspyrnuþjálfarafélagsins sem sett var á laggirnar í janúar árið 1980 og tók Reynir Karlsson sæti í stjórn.
Í dag er núverandi formaður KÞÍ, Sigurður Þórir Þorsteinsson, einn af varaforsetum félagsins og því annar Íslendingurinn sem kosinn hefur verið í stjórn þess. Í gegnum tíðina, fyrst stopult en undanfarið á hverju ári, hafa knattspyrnuþjálfarar getað sótt um styrki til KÞÍ til þess að sækja fræðslu út fyrir landsteinana. Fjölmargir hafa nýtt sér þessa styrki. Í lok slíkra ferða skila þjálfarar inn skýrslu um það helsta sem á daga þeirra dreif og má kynna sér skýrslur þessar, allt aftur til ársins 1993, á heimasíðu KÞÍ.
Í 50 ára sögu Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands hafa skipst á skin og skúrir hvað varðar þátttöku félagsmanna og fjárhag þess. Á 10 ára afmæli félagsins er haft eftir Lárusi Loftssyni, sem hafði þá setið í stjórn allt frá stofnun félagsins: ,,Það fer ekki á milli mála að félag okkar hefur átt erfiða tíma, ekki síst hvað varðar afskiptaleysi félagsmanna hvað fundi og fjármál snertir.” Þátttökuleysi félagsmanna, sem hann vísar þarna til, hefur á tímabilum að einhverju leyti staðið félaginu fyrir þrifum. Eins og hjá öllum öðrum félagasamtökum byggist árangur á því að félagsmenn séu virkir þátttakendur sem og á öflugu sjálfboðaliðastarfi.
Í dag stendur félagið vel hvað þessa þætti varðar. Fjölmargir hafa lagt lóð á vogarskálarnar t.d. með setu í stjórn og nefndum og aðkomu að skipulagi hinna ýmsu viðburða. Félagar í KÞÍ eru nú 263 talsins, rúm 90% félagsmanna eru karlar og tæp 10% eru konur. Vonir standa til að þessi hlutföll muni jafnast þegar fram líða stundir. Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir var fyrst kvenna til að setjast í stjórn KÞÍ, árið 1995. Síðan þá hafa aðeins þrjár konur verið í stjórn félagsins. Í 10 ára afmælisriti KÞÍ segir svo frá afmælisfögnuði félagsins: „Það varð einnig til að setja sérstakan hátíðarblæ á þessa kvöldstund að flestir höfðu tekið konur sínar með til fagnaðarins og var ekki annað að sjá og heyra en að þær skemmtu sér konunglega þó að fátt væri rætt annað en knattspyrna.”
Í því riti vekur einnig athygli að eingöngu er fjallað um þjálfun drengja og karla en hvergi minnst á þátttöku kvenna og stúlkna í íþróttinni. Undanfarin ár hefur stjórn KÞÍ sett sig í samband við konur í þjálfun og hvatt þær til að ganga til liðs við félagið. Einnig hefur félagið átt frumkvæði að samtali um hvernig fjölga megi konum í þjálfun og er það vel.
Á síðasta aðalfundi KÞÍ voru samþykktar lagabreytingar sem m.a. er ætlað að auka jafnrétti innan félagsins. Knattspyrnuþjálfarafélag íslands er fyrir alla knattspyrnuþjálfara sem vilja veg og framgang íslenskrar knattspyrnu sem mestan. Félagið hefur verið mikilvægur hlekkur í uppfræðslu íslenskra knattspyrnuþjálfara og stuðningi við þá þegar á hefur reynt.
