Uncategorized

KÞÍ 50 ára

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands (KÞÍ) fagnar 50 ára afmæli í dag, föstudaginn 13. nóvember.

KÞÍ var stofnað árið 1970 en það var Albert Guðmundsson þáverandi formaður Knattspyrnusambands Íslands, sem var helsti hvatamaður þess. KÞÍ sinnir fræðslumálum þjálfara eftir fremsta megni og stendur árlega fyrir fræðsluviðburðum, ýmist sjálfstætt eða í samvinnu við KSÍ. Þá hefur stjórn félagsins veitt félagsmönnum sínum styrki til endurmenntunar erlendis. Önnur verkefni stjórnar snúa meðal annars að aðstoð við félagsmenn, en oft lúta slík mál að starfslokum þjálfara þar sem misvel er staðið að málum hjá félögum.Til stóð að fagna afmælisárinu 2020 með ýmsum viðburðum og ráðstefnuhaldi en það hefur verið óframkvæmanlegt vegna aðstæðna eins og kunnugt er.

Í tilefni stórafmælisins gefur KÞÍ út glæsilegt afmælisrit, sem kemur út bæði rafrænt og á prenti og inniheldur ýmsar áhugaverðar greinar og viðtöl við þjálfara. Vonandi verður blaðið mikilvæg söguleg heimild um starfsemi KÞÍ.

Loks kynnir félagið nýja og endurbætta heimasíðu KÞÍ (kthi.is) og nýtt merki félagsins.

Uncategorized

Aðalfundur KÞÍ 2020

Ágætu félagsmenn og aðrir hlutaðeigandi.

Hinn 4. júní sl. var aðalfundur KÞÍ haldinn í höfuðstöðvum KSÍ. Um 15 manns sóttu fundinn en honum var einnig streymt á fésbókarsíðu félagsins. Er þetta í fyrsta sinn sem það er gert og virðist það hafa tekist nokkuð vel. Þá er þetta einnig í fyrsta sinn sem aðalfundur KÞÍ er í júní. Það á sér tvenns konar skýringar, annars vegar vegna breytinga sem urðu á lögum KÞÍ á síðasta aðalfundi þess efnis að nú er reikningsárið almanaaksárið og því fer aðalfundur fram á tímabilinu febrúar til apríl ár hvert og hins vegar tafir vegna COVID-19.

Dagskrá aðalfundar var hefðbundin. Er hér tæpt á því helsta.

Í upphafi gerði Hákon Sverrisson, sem er starfandi formaður KÞÍ í forföllum Sigurðar Þóris Þorsteinssonar sem er í námsleyfi í Þýskalandi, grein fyrir skýrslu stjórnar KÞÍ vegna síðasta starfsárs sem að þessu sinni var frá 1. september 2018 til og með 31. desember 2019 vegna fyrrgreindra breytinga á lögum KÞÍ. Ýmislegt kom fram í skýrslu stjórnar en það markverðasta er e.t.v. að unnið er að því koma nýrri heimasíðu KÞÍ í loftið á næstunni. Mun það verða kynnt betur þegar þar að kemur.   

Því næst gerði Birgir Jónasson, gjaldkeri KÞÍ, grein fyrir reikningsskilum félagsins. Fram kom að staða félagsins hefur aldrei verið betri, þ.e. bæði er hagnaður félagsins meiri en áður hefur verið og eiginfjárstaðan er einnig betri en dæmi eru um. Skýringar á þessu eru m.a. þær að félagið hefur verið ötult í að afla fjár þar sem nú í ár er afmælisár sem fyrirséð er að muni verða nokkuð kostnaðarsamt. 

Á fundinum voru bornar upp og samþykktar viðamiklar breytingar á lögum KÞÍ. Um ræðir tillögur frá gjaldkera félagsins. Nánar tiltekið er um að ræða mestu breytingar sem gerðar hafa verið á lögum KÞÍ frá stofnun félagsins. Í stuttu máli er þeim ætlað að mæla fyrir um jafnrétti, valddreifingu, aukið lýðræði og góða stjórnarhætti. Eru félagsmenn hvattir til þess að kynna sér þessar breytingar en þær verða birtar inni á heimasíðu félagsins innan skamms.

Kosningar stjórnarmanna og varamanna í stjórn fóru fram á fundinum en kosið var um sæti tveggja stjórnarmanna og tveggja varamanna. Þrír stjórnarmenn hættu störfum, þeir Aðalbjörn Hannesson, Daði Rafnsson og Halldór Þ. Halldórsson. Eru þeim veittar innilegar þakkir fyrir störf þeirra í þágu KÞÍ. Þau Helga Helgadóttir og Þórhallur Siggeirsson voru kosin stjórnarmenn og þeir Kristján Gylfi Guðmundsson og Jóhann Kristinn Gunnarsson voru kosnir í varastjórn. Þau Helga, Þórhallur og Jóhann Kristinn eru ný í stjórn félagsins en Kristján Gylfi var kosinn varamaður í annað sinn. Eru þau boðin velkomin til starfa.

Veittar voru viðurkenningar fyrir vel unnin störf við þjálfun. Um er að ræða nýja nálgun hjá stjórn KÞÍ þar sem hætt hefur verið að veita sérstök verðlaun fyrir efstu deild karla og kvenna og yngriflokka þjálfun. Er von stjórnar að þetta gefist vel. Eftirfarandi þjálfarar hlutu verðlaun:

  • Alfreð Elías Jóhannsson, knattspyrnuþjálfari hjá Selfossi.
  • Helga Helgadóttir, knattspyrnuþjálfari hjá Haukum.
  • Ingvi Sveinsson, knattspyrnuþjálfari hjá Þrótti.
  • Soffía Ámundadóttir, knattspyrnuþjálfari hjá Val.

Eru umræddir þjálfarar vel að þessu komnir og er þeim óskað velfarnaðar í framtíðinni.

Í lok fundar var Þórhallur Siggeirsson með erindi um hugleiðingar hans um umhverfi knattspyrnuþjálfarans. Þórhallur kom víða við í fyrirlestri sínum og er óhætt að segja að hann hafi ekki skafið utan af hlutunum. Erindi Þórhalls var einkar hreinskiptið og áhugavert. Eru félagsmenn hvattir til þess að hlýða á erindið.    

Um leið og stjórn KÞÍ þakkar félagsmönnum sínum fyrir samstarfið á síðasta starfsári er athygli vakin á því unnt er að hlýða á upptöku af aðalfundinum inni fésbókarsíðu KÞÍ.  

Stjórn KÞÍ.

Uncategorized

Skilaboð frá stjórn KÞÍ

Ágætu knattspyrnuþjálfarar

Stjórn Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands (KÞÍ) vill vekja athygli á sameiginlegum fræðsluviðburði KÞÍ og KSÍ í Fífunni á miðvikudag þegar danski knattspyrnuþjálfarinn Kasper Hjulmand kemur hingað til lands. Viðburður þessi hefur þegar verið auglýstur, sjá t.d. http://kthi.is/read/2020-02-17/kasper-hjulmand-26-februar-2020/.  Viðbrögð hafa verið góð og allmargir hafa þegar skráð sig sem er ánægjulegt.

Stjórn KÞÍ vill hvetja sem flesta að sækja viðburðinn sem er félagsmönnum að kostnaðarlausu. Þá vill stjórnin enn fremur þakka þjálfurum fyrir góð viðbrögð við greiðslu árgjaldsins fyrir árið 2020 en greiðsluseðlar voru sendir út um síðustu mánaðamót. Viðbrögðin eru betri en undanfarin ár og sérstaklega er ánægjulegt að sjá að konum í félaginu hefur fjölgað. 

Þeir þjálfarar sem ekki eru skráðir í KÞÍ geta ávallt gert það í gegnum heimasíðu félagsins, http://kthi.is/page/skraning-i-felagid. Þá er einnig unnt að senda tölvupóst á kthi@kthi.is og skrá sig með þeim hætti. Athygli er þó vakin á því að skráning verður ekki fullgild fyrr en við greiðslu árgjalds, 6.000 kr. Unnt er að leggja andvirði árgjaldsins inn á bankareikning félagsins, nr. 140-26-051279 (kt. 501279-0139), með skýringunni „Árgjald 2020“.   

Í ár er afmælisár KÞÍ en félagið verður 50 ára. Ráðgert er að félagið muni standa fyrir nokkrum viðburðum á árinu sem auglýstir verða sérstaklega, þ. á m. afmælishátíð í nóvember. Stefnt er að því að þeir viðburðir verði, sem fyrr, fræðslutengdir og félagsmönnum að kostnaðarlausu.

Trauðla þarf að fjölyrða um ávinning þess að vera félagsmaður í KÞÍ en um það hefur stjórn félagsins og einstakir stjórnarmenn margoft fjallað um í pistlum undanfarinna ára. Á hinn bóginn skorar stjórn KÞÍ á knattspyrnuþjálfara að bindast samtökum KÞÍ í auknum mæli með því að greiða árgjald félagsins og þannig leggja sitt af mörkum til þess að gera félagið að öflugum þrýstihópi innan knattspyrnuhreyfingarinnar.

Því miður er það svo að uppbygging knattspyrnuhreyfingarinnar er með þeim hætti að ekki er gert ráð fyrir því að knattspyrnuþjálfarar hafi sérstaka stöðu og/eða talsmann innan hreyfingarinnar. Knattspyrnuþjálfarar geta hins vegar verið öflugur þrýstihópur og tryggt þannig lýðræðislegt aðhald innan hreyfingarinnar. Besta leiðin til þess að bindast samtökum KÞÍ þannig að stjórn félagsins fái umboð sem flestra knattspyrnuþjálfara til þess að vinna að hagsmunamálum þjálfara.

Virðingarfyllst,

stjórn KÞÍ.